Orðskviðirnir 31 - Biblían (2007)Orð móður Lemúels 1 Orð Lemúels konungs í Massa sem móðir hans kenndi honum: 2 Hvað á ég að segja þér, sonur minn, sonur kviðar míns, sonur áheita minna? 3 Gefðu konum ekki kraft þinn, þrek þitt þeim sem táldraga konunga. 4 Ekki sæmir það konungum, Lemúel, ekki sæmir það konungum að drekka vín eða höfðingjum áfengur drykkur. 5 Þeir kynnu að drekka og gleyma lögunum og ganga á rétt hinna fátæku. 6 Gefið áfengan drykk hinum lánlausa og vín þeim sem er beiskur í lund. 7 Drekki þeir og gleymi fátækt sinni og minnist ekki framar mæðu sinnar. 8 Ljúktu upp munni þínum fyrir hinn mállausa, fyrir málstað allra lánleysingja. 9 Ljúktu upp munni þínum, dæmdu af réttvísi, réttu hlut hinna voluðu og snauðu. Lof um dugmikla konu 10 Dugmikla konu, hver hlýtur hana? Hún er miklu dýrmætari en perlur. 11 Hjarta manns hennar treystir henni og ekki er lát á hagsæld hans. 12 Hún gerir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína. 13 Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum. 14 Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að. 15 Hún fer á fætur fyrir dögun, skammtar heimilisfólki sínu og segir þernum sínum fyrir verkum. 16 Fái hún augastað á akri kaupir hún hann og af eigin rammleik býr hún sér víngarð. 17 Hún gyrðir lendar sínar krafti og tekur sterklega til armleggjunum. 18 Hún finnur að starf hennar er ábatasamt, á lampa hennar slokknar ekki um nætur. 19 Hún réttir út hendurnar eftir rokknum og fingur hennar grípa snælduna. 20 Hún er örlát við bágstadda og réttir fram hendurnar móti snauðum. 21 Ekki óttast hún um heimilisfólk sitt þótt snjói því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati. 22 Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura. 23 Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum þegar hann situr með öldungum landsins. 24 Hún býr til línkyrtla og selur þá og kaupmanninum fær hún belti. 25 Kraftur og tign er klæðnaður hennar og hún fagnar komandi degi. 26 Mál hennar er þrungið speki og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar. 27 Hún vakir yfir því sem fram fer á heimili hennar og etur ekki letinnar brauð. 28 Börn hennar segja hana sæla, maður hennar hrósar henni: 29 „Margar konur hafa sýnt dugnað en þú tekur þeim öllum fram.“ 30 Yndisþokkinn er svikull og fegurðin hverful en sú kona sem óttast Drottin á hrós skilið. 31 Hún njóti ávaxta handa sinna og verk hennar skulu vegsama hana í borgarhliðunum. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society