Orðskviðirnir 16 - Biblían (2007)1 Fyrirætlanir hjartans eru á mannsins valdi en svar tungunnar kemur frá Drottni. 2 Maðurinn telur alla vegu sína vammlausa en Drottinn reynir ásetning hans. 3 Fel Drottni verk þín og þá bera áform þín árangur. 4 Allt hefur Drottinn skapað í ákveðnum tilgangi, eins hinn rangláta vegna óheilladagsins. 5 Sérhver hrokagikkur er Drottni andstyggð, vissulega sleppur hann ekki við refsingu. 6 Misgjörðir afplána menn með tryggð og vináttu, að óttast Drottin forðar frá illu. 7 Ef Drottni geðjast breytni manns snýr hann jafnvel óvinum hans til liðs við hann. 8 Betra er lítið með réttu en mikill arður með röngu. 9 Hjarta mannsins velur leið hans en Drottinn stýrir skrefum hans. 10 Goðsvar er á vörum konungsins, í dómi skeikar honum ekki. 11 Rétt vog og reisla koma frá Drottni og lóðin á vogarskálunum eru hans verk. 12 Ranglætisverk eru konungum andstyggð því að hásætið er reist á réttlæti. 13 Sannleiksorð eru yndi konunga, hinn hreinskilni fellur þeim í geð. 14 Konungsreiði er fyrirboði dauðans en vitur maður sefar hana. 15 Í brosi konungs felst líf og hylli hans er sem regnský á vori. 16 Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs. 17 Háttur hreinskilinna er að forðast illt, líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar. 18 Dramb er falli næst, hroki veit á hrun. 19 Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum. 20 Vel farnast þeim sem vel rækir erindi sitt og sæll er sá sem treystir Drottni. 21 Hinn vitri leitar ráða spekinga og vel mælt orð eykur fræðslu. 22 Skynsemin er lífslind þeim sem hana á en heimskan er refsing heimskra. 23 Hjarta spekingsins ræður orðum hans og eykur fræðsluna á vörum hans. 24 Vingjarnleg orð eru hunang, sæt fyrir góminn, lækning fyrir beinin. 25 Margur vegur virðist greiðfær en reynist þó heljarslóð. 26 Hungur erfiðismannsins knýr hann til verka því að sulturinn rekur á eftir honum. 27 Varmennið bruggar vélráð, orð hans eru sem brennandi eldur. 28 Vélráður maður kveikir illdeilur og rógberinn veldur vinaskilnaði. 29 Ofbeldismaðurinn ginnir náunga sinn og leiðir hann í ófæru. 30 Hálflukt augu vitna um ill áform, herptar varir um unnið ódæði. 31 Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana. 32 Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir. 33 Í skikkjufellingu eru teningarnir hristir en Drottinn ræður hvað upp kemur. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society