Ljóðaljóðin 2 - Biblían (2007)1 Ég er rós í Saron, lilja í dölunum. (Hann) 2 Sem lilja meðal þyrna er ástin mín meðal meyjanna. (Hún) 3 Sem eplatré í kjarrviði ber elskhugi minn af sveinunum. Í skugga hans uni ég og ávextir hans eru gómsætir. 4 Hann leiddi mig í veisluskála og tákn ástar hans var yfir mér. 5 Nærið mig á rúsínukökum, styrkið mig með eplum, ég er máttvana af ást. 6 Vinstri hönd þín undir höfði mér, hin hægri faðmi mig. 7 Ég særi yður, Jerúsalemdætur, við dádýrin, við hindirnar á völlunum: truflið ekki, vekið ekki ástina fyrr en hún sjálf vill. 8 Elskhugi minn. Þarna kemur hann. Stekkur yfir fjöllin, hleypur yfir hæðirnar. 9 Elskhugi minn líkist dádýri eða hindarkálfi og þarna stendur hann við húsvegginn, horfir inn um gluggann, skyggnist inn um grindurnar. 10 Elskhugi minn segir við mig: Stattu upp, ástin mín fagra, komdu. (Hann) 11 Veturinn er liðinn, vorregnið að baki. 12 Landið blómgast, tími söngsins er kominn, kurr turtildúfunnar heyrist í landi okkar. 13 Fíkjutrén bera ávöxt, ilm leggur af blómstrandi vínviði. Stattu upp, ástin mín fagra, komdu. 14 Dúfan mín í klettaskorum, í hamrafylgsni, sýndu mér ásýnd þína, láttu mig heyra rödd þína; rödd þín er ljúf og ásýndin yndisleg. 15 Veiðið fyrir okkur refina, yrðlingana sem spilla vínekrunum, vínekrur okkar eru í blóma. (Hún) 16 Elskhugi minn er minn og ég er hans, hans sem leikur meðal lilja. 17 Þegar kular í dögun og skuggarnir flýja, snúðu þá, elskhugi minn, upp til ilmfjallanna, líkur dádýri, líkur hindarkálfi. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society