Jóel 4 - Biblían (2007)Þjóðirnar dæmdar 1 Á þeim tíma og á þeim dögum er ég rétti hag Júda og Jerúsalem 2 safna ég saman öllum þjóðum og stefni þeim niður í Jósafatsdal. Og þar sæki ég þær til saka vegna lýðs míns og arfleifðar Ísraels því að þær hafa tvístrað henni meðal þjóðanna og hlutað sundur land mitt. 3 Þeir hafa varpað hlutkesti um þjóð mína, látið pilt fyrir skækju og ungmey fyrir vínið sem þeir drukku. 4 Hvað viljið þér mér, Týrus, Sídon og öll Filisteahéruð? Hyggið þér á málagjöld einhvers sem ég hef gert yður? Hyggist þér endurgjalda mér? Skjótt og sviplega læt ég þá verk yðar koma yður í koll. 5 Þér hafið rænt silfri mínu og gulli og fært ágætustu gersemar mínar í hof yðar. 6 Júdamenn og Jerúsalembúa hafið þér selt Grikkjum þannig að þeir fluttust langt burt frá átthögum sínum. 7 En ég kalla þá burt þaðan sem þér selduð þá, og verk yðar munu hitta sjálfa yður fyrir. 8 Syni yðar og dætur sel ég Júdamönnum. Þeir munu aftur selja þau Sabamönnum, fjarlægri þjóð, því að svo hefur Drottinn mælt. 9 Boðið þetta meðal þjóðanna: Búið yður til stríðs. Kallið út kempurnar. Allir stríðsmenn komi fram og búist til hernaðar. 10 Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og spjót úr sniðlum yðar. Hver vesalingur hrópi: „Ég er garpur.“ 11 Skundið af stað, komið hvaðanæva, allar þjóðir. Safnist þar saman. Drottinn, sendu niður kappa þína þangað. 12 Þjóðirnar skulu halda í flýti upp til Jósafatsdals. Þar sest ég í dómarasæti yfir grannþjóðunum öllum. 13 Bregðið sigðinni, vínberin eru fullþroskuð. Komið og troðið. Svo full er vínþróin að lagarkerin flóa yfir. Svo mikil er illska þeirra. 14 Mannþröng, mannsægur í Dal dómsins. Nálægur er dagur Drottins í Dal dómsins. Dagur Drottins 15 Sól og tungl myrkvast og stjörnurnar synja um birtu sína. 16 En Drottinn þrumar frá Síon og hefur upp raust sína frá Jerúsalem svo að himinn og jörð nötra. En lýð sínum veitir Drottinn skjól og Ísraelsmönnum er hann athvarf. 17 Og yður verður ljóst að ég, Drottinn, Guð yðar, bý á Síon, hinu heilaga fjalli mínu. Jerúsalem verður heilög, aðkomumenn munu aldrei framar ryðjast þar í gegn. 18 Á þeim degi drýpur vínlögur af fjöllunum, hæðirnar fljóta í mjólk og vatn mun streyma um alla farvegi í Júda. Og lind mun streyma frá húsi Drottins og fylla farveg Akasíudalsins. Endurlausn Júda 19 Egyptaland verður að auðn og Edóm að mannlausum öræfum vegna ofbeldisins gegn Júdamönnum. Í landi þeirra úthelltu þeir saklausu blóði. 20 En Júda verður byggð að eilífu og Jerúsalem um aldir alda. 21 Saklaust mun ég telja það blóð sem ég mat áður til blóðsakar. Og Drottinn mun dveljast um kyrrt á Síon. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society