Harmljóðin 3 - Biblían (2007)Hegning, iðrun, von 1 Ég er maðurinn sem hefur þjáðst undir reiðisvipu hans. 2 Mig hefur hann hrakið burt, út í myrkur og niðdimmu. 3 Gegn mér snýr hann hendi sinni án afláts allan daginn. 4 Hann hefur tálgað af mér hold og hörund og mulið bein mín. 5 Beiskju og mæðu hefur hann hlaðið upp í kringum mig, 6 hneppt mig í myrkur eins og þá sem dánir eru fyrir löngu. 7 Hann hefur múrað mig inni svo að ég kemst ekki út, lagt á mig þunga fjötra. 8 Þótt ég hrópi og kalli á hjálp hafnar hann bæn minni. 9 Hann hefur lokað vegum mínum með höggnum steinum, gert stigu mína torfæra. 10 Hann sat um mig eins og björn um bráð, eins og ljón í launsátri. 11 Hann leiddi mig afvega og tætti mig sundur, hann gerði út af við mig. 12 Hann spennti boga sinn og stillti mér upp sem skotmarki fyrir örina. 13 Hann nísti nýru mín með sonum örvamælis síns. 14 Ég varð allri þjóð minni að athlægi, hún syngur um mig háðkvæði liðlangan daginn. 15 Hann mettaði mig beiskum jurtum, gaf mér malurt að drekka, 16 lét mig bryðja möl og þrýsti mér í duftið. 17 Þú hefur rænt mig friði, ég veit ekki lengur hvað hamingja er 18 og segi: „Allur þróttur er mér horfinn og brostin von mín til Drottins.“ 19 Minnstu neyðar minnar og hrakninga, malurtarinnar og eitursins. 20 Sál mín hugsar sífellt um þetta og er döpur í brjósti mér. Miskunn Guðs varir 21 En þetta vil ég hugfesta og þess vegna vona ég: 22 Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, 23 hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín. 24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vona ég á hann. 25 Góður er Drottinn þeim er á hann vona og þeim manni er til hans leitar. 26 Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. 27 Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku. 28 Hann sitji einn og hljóður þegar Drottinn hefur lagt það á hann. 29 Hann liggi með munninn við jörðu, vera má að enn sé von, 30 hann bjóði þeim vangann sem slær hann, láti metta sig smán. 31 Því að ekki útskúfar Drottinn um alla eilífð. 32 Þótt hann valdi harmi, miskunnar hann af mikilli náð sinni. 33 Því að viljandi hrjáir hann ekki né hrellir mannanna börn. 34 Að troða undir fótum alla bandingja landsins, 35 að halla rétti manns fyrir augliti Hins hæsta, 36 að beita mann ranglæti í máli hans, skyldi Drottinn ekki sjá það? 37 Hver er sá sem bauð og það varð án þess að Drottinn hafi ákveðið það? 38 Gengur ekki fram af munni Hins hæsta bæði gæfa og ógæfa? 39 Hví skyldi nokkur lifandi maður kvarta sem refsað er fyrir syndir sínar? 40 Rannsökum breytni vora og prófum og snúum aftur til Drottins. 41 Fórnum hjarta og höndum til Guðs í himninum. 42 Vér höfum syndgað og verið óhlýðnir, þú hefur ekki fyrirgefið, 43 þú sveipaðir þig reiði, ofsóttir oss og deyddir vægðarlaust. 44 Þú sveipaðir þig skýi svo að engin bæn kemst í gegn. 45 Þú gerðir oss að skarni og sorpi á meðal þjóðanna. 46 Allir óvinir vorir glenntu upp ginið. 47 Geigur og gildra urðu hlutskipti vort, eyðing og tortíming. 48 Táralækir streyma af augum mér því að þjóð minni er tortímt. 49 Hvíldarlaust fljóta augu mín í tárum án þess að hlé verði á, 50 uns Drottinn lítur niður af himnum og horfir á. 51 Það sem auga mitt lítur kvelur mig vegna allra dætra borgar minnar. 52 Þeir sem voru óvinir mínir án tilefnis hafa elt mig eins og fugl. 53 Þeir reyndu að granda mér í gryfju og köstuðu steinum á mig. 54 Vatn flóði yfir höfuð mitt, ég hugsaði: „Það er úti um mig.“ 55 Ég ákallaði nafn þitt, Drottinn, úr djúpi gryfjunnar. 56 Þú heyrðir hróp mitt: „Byrg ekki eyra þitt fyrir ákalli mínu um hjálp.“ 57 Þú nálgaðist mig þegar ég hrópaði til þín, sagðir: „Óttast ekki!“ 58 Þú varðir, Drottinn, málstað minn, leystir líf mitt. 59 Þú hefur, Drottinn, séð óréttinn sem ég er beittur, rétt þú hlut minn. 60 Þú hefur séð hefndarþorsta þeirra, allt ráðabrugg þeirra gegn mér, 61 þú hefur heyrt háðsyrði þeirra, Drottinn, allt ráðabrugg þeirra gegn mér, 62 sífellt hljóðskraf andstæðinga minna og ráðagerðir þeirra gegn mér. 63 Sjá þú, hvort sem þeir sitja eða standa kveða þeir háðkvæði um mig. 64 Endurgjald þeim, Drottinn, eins og þeir hafa til unnið. 65 Legg hulu yfir hjarta þeirra, bölvan þín komi yfir þá. 66 Ofsæktu þá í reiði og afmá þá undan himni Drottins. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society