Míka 1 - Biblían (2007)1 Orð Drottins sem kom til Míka frá Móreset á dögum Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda, það er honum vitraðist um Samaríu og Jerúsalem. Guð stígur ofan til dóms 2 Heyrið, allar þjóðir. Hlusta þú, veröld, og allt sem í þér er. Drottinn, Guð minn, ber yður sökum, Drottinn vitnar gegn yður úr sínu heilaga musteri. 3 Sjá, Drottinn kemur úr dvalarstað sínum, hann kemur ofan og treður hæðir jarðarinnar. 4 Fjöllin bráðna fyrir honum og dalirnir gliðna sem vax fyrir eldi líkt og vatn steypist ofan bratta hlíð. 5 Og allt þetta sökum afbrota Jakobs og synda Ísraelsættar. Hver er misgjörð Jakobs? Er það ekki Samaría? Og hver er synd Júda? Er það ekki Jerúsalem? 6 Þess vegna geri ég Samaríu að rúst á víðavangi, gróðurreit fyrir vínvið, því að steinum hennar mun ég ryðja niður í dalinn og afhjúpa undirstöður hennar. 7 Mölvaðar skulu allar höggmyndir hennar og allur skækjuauður hennar borinn á eld. Ég eyði öllum skurðgoðum hennar því að fyrir hórgjöld eru þau fengin og að hórgjöldum skulu þau aftur verða. 8 Vegna þessa harma ég og kveina, geng berfættur og klæðlaus, ýlfra eins og sjakalinn, væli eins og uglan. 9 Því að sár Samaríu er ólæknandi, það nær allt til Júda, allt að hliðum þjóðar minnar, allt til Jerúsalem. 10 Segið ekki frá því í Gat. Grátið ekki. Veltið yður í rykinu í Betleafra. 11 Hverfið burt naktir og smáðir, þér íbúar í Safír. Ekki komast íbúar Saanan undan. Í Bet Haesel hljóma harmakvein, í henni eigið þér enga stoð framar. 12 Íbúarnir í Marot væntu sér heilla, en hörmungar hefur Drottinn sent allt að hliðum Jerúsalemborgar. 13 Spennið hesta fyrir vagnana, þér, íbúar í Lakís. Þar var drýgð höfuðsynd dótturinnar Síonar, hjá yður birtust syndir Ísraels. 14 Fyrir þá sök verður skilnaður milli yðar og Móreset-Gat. Húsin í Aksív munu bregðast konungum Ísraels líkt og þorrin vatnslind. 15 Enn sendi ég sigurvegara gegn yður sem í Maresa búið. Og enn mun tign Ísraels hörfa til Adúllam. 16 Skerðu hár þitt og rakaðu höfuðið vegna barnanna sem áður voru yndi þitt. Gerðu þig nauðasköllótta sem hrægamm því að börnin hafa verið hrakin frá þér í útlegð. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society