Biblia Todo Logo
Bìoball air-loidhne

- Sanasan -

Jesaja 1 - Biblían (2007)


Fyrsti hluti

1 Vitrun Jesaja Amotssonar um Júda og Jerúsalem sem hann fékk í stjórnartíð Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda.


Drottinn ákærir þjóð sína

2 Heyr þú, himinn, hlusta þú, jörð, því að Drottinn talar. Ég hef fóstrað börn og alið þau upp en þau hafa brugðist mér.

3 Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns en Ísrael þekkir ekki, fólk mitt skilur ekki.

4 Vei syndugri þjóð, lýð sem hlaðinn er misgjörðum, niðjum illræðismanna, spilltum börnum. Þér hafið yfirgefið Drottin, hafnað Hinum heilaga Ísraels og snúið baki við honum.

5 Hvar má enn ljósta yður sem sífellt eruð fráhverfir? Höfuðið er allt í sárum, hjartað allt sjúkt.

6 Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt, hvarvetna mar, undir og opin sár sem hvorki eru hreinsuð né bundið um né mýkt með olíu.

7 Land yðar er auðn, borgirnar brenndar. Fyrir augum yðar gleypa útlendingar akurland yðar, það er eyðimörk líkt og varð þegar Sódómu var eytt.

8 Dóttirin Síon er ein eftir eins og skýli í víngarði, eins og afdrep á gúrkuakri, eins og umsetin borg.

9 Hefði Drottinn allsherjar ekki látið oss eftir örfáa sem björguðust, hefðum vér orðið eins og Sódóma, líkst Gómorru.


Fánýtar fórnir

10 Heyrið orð Drottins, höfðingjar Sódómu. Hlýðið á leiðsögn Guðs vors, íbúar Gómorru:

11 Hvað varða mig yðar mörgu sláturfórnir? spyr Drottinn. Ég hef fengið of mikið af brennifórnum hrúta og feiti alikálfa, í blóð úr nautum, lömbum og geitum langar mig ekki.

12 Þegar þér komið til að líta auglit mitt, hver hefur þá beðið yður að traðka forgarða mína?

13 Færið mér ekki framar fánýtar kornfórnir, reykelsi er mér viðurstyggð. Tunglkomudagar, hvíldardagar og hátíðarsamkomur, ég þoli ekki að saman fari ranglæti og hátíðarglaumur.

14 Ég hata tunglkomudaga yðar og hátíðir, þær eru mér byrði, ég er orðinn þreyttur á að bera þær.

15 Þegar þér lyftið höndum yðar í átt til mín loka ég augunum og þótt þér biðjið margra bæna heyri ég ekki. Hendur yðar eru ataðar blóði.

16 Þvoið yður! Hreinsið yður! Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum. Hættið að gera illt,

17 lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar.

18 Komið, vér skulum eigast lög við, segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri skulu þær verða sem ull.

19 Ef þér eruð auðsveipir og hlýðnir skuluð þér njóta landsins gæða

20 en séuð þér óhlýðnir og þrjóskir verðið þér sverði bitnir. Munnur Drottins hefur talað það.


Dómur yfir Jerúsalem

21 Hin trúfasta borg er orðin skækja, hún sem var full af réttvísi. Fyrrum bjó réttlæti í henni en nú morðingjar.

22 Silfur þitt er orðið að sora, vín þitt blandað vatni.

23 Leiðtogar þínir eru uppreisnarmenn og lagsmenn þjófa. Allir eru þeir mútuþægir og sækjast eftir gjöfum. Þeir reka ekki réttar munaðarlausra og málefni ekkjunnar koma ekki fyrir þá.

24 Þess vegna segir Drottinn allsherjar, hinn voldugi í Ísrael: Vei, ég mun svala mér á andstæðingum mínum, hefna mín á óvinum mínum.

25 Ég ætla að snúa hendi minni gegn þér og hreinsa úr þér sorann með lút og skilja frá allt blýið.

26 Þá mun ég fá þér dómara eins og þá sem voru í öndverðu og ráðgjafa líka þeim sem voru í upphafi. Eftir það verður þú nefnd Borg réttlætisins, Virkið trúfasta.

27 Síon verður frelsuð með réttvísi og með réttlæti þeir sem iðrast.

28 En lögbrjótar og syndarar verða upprættir og þeim sem yfirgefa Drottin verður eytt.

29 Þér munuð skammast yðar fyrir eikurnar sem þér hafið mætur á og roðna af blygðun vegna garðanna sem þér kusuð yður.

30 Þér verðið sjálfir eins og eik með visnuðu laufi, eins og lundur án vatns.

31 Þá verður hinn voldugi að hálmi og verk hans neisti, hvort tveggja brennur í senn og enginn til að slökkva.

Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007 

Icelandic Bible Society
Lean sinn:



Sanasan