Jeremía 1 - Biblían (2007)1 Ræður Jeremía Hilkíasonar sem var einn af prestunum í Anatót í Benjamínslandi. 2 Orð Drottins kom til hans á dögum Jósía Amónssonar Júdakonungs, á þrettánda stjórnarári hans. 3 Orð Drottins kom einnig til hans á dögum Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, allt til loka ellefta stjórnarárs Sedekía Júdakonungs þegar íbúar Jerúsalem voru herleiddir í fimmta mánuðinum. Köllun Jeremía 4 Orð Drottins kom til mín: 5 Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. 6 Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ 7 Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. 8 Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér,“ segir Drottinn. 9 Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. 10 Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“ Fyrri sýn: möndluviðargrein 11 Orð Drottins kom til mín: „Hvað sérðu, Jeremía?“ Ég svaraði: „Ég sé möndluviðargrein.“ 12 Þá sagði Drottinn við mig: „Þú hefur séð rétt því að ég vaki yfir því að orði mínu verði framfylgt.“ Síðari sýn: rjúkandi pottur 13 Orð Drottins kom til mín öðru sinni: „Hvað sérðu?“ Ég svaraði: „Ég sé rjúkandi pott sem hallast úr norðri.“ 14 Þá sagði Drottinn við mig: Úr norðri verður böli hellt yfir alla íbúa landsins. 15 Því sjá: Ég kalla á öll konungsríkin fyrir norðan, segir Drottinn. Þau koma og reisa hvert sitt hásæti utan við borgarhlið Jerúsalem, gegnt borgarmúrum hennar allt umhverfis, og ógna öllum borgum í Júda. 16 Þá mun ég kveða upp dóm yfir þeim vegna allrar illsku þeirra þegar þeir yfirgáfu mig og færðu öðrum guðum brennifórnir og tilbáðu verk eigin handa. Hlutverk spámannsins 17 En sjálfur skalt þú gyrða lendar þínar, ganga fram og boða þeim allt sem ég býð þér. Láttu ekki hugfallast frammi fyrir þeim, ella svipti ég þig hugrekki fyrir augum þeirra. 18 Í dag geri ég þig að víggirtri borg, að járnsúlu, að virkisvegg úr eir gegn konungunum í Júda og höfðingjum þar, gegn prestunum í Júda og stórbændunum. 19 Þeir munu ráðast gegn þér en ekki sigra þig því að ég er með þér til að bjarga þér, segir Drottinn. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society