Hósea 1 - Biblían (2007)Hórkonan og börn hennar 1 Orð Drottins sem barst Hósea Beerísyni þegar Ússía, Jótam, Akas og Hiskía voru konungar í Júda og Jeróbóam Jóasson var konungur í Ísrael. 2 Drottinn tók nú að tala til Hósea. Drottinn sagði við Hósea: „Farðu og gakktu að eiga hórkonu og eignastu hórbörn því að landið drýgir hór og hverfur frá Drottni.“ 3 Þá fór hann og gekk að eiga Gómer Diblaímsdóttur, hún varð þunguð og ól honum son. 4 Drottinn sagði við hann: „Láttu hann heita Jesreel því að eftir skamma hríð dreg ég ætt Jehú til ábyrgðar fyrir blóðbaðið í Jesreel og bind enda á konungdæmi Ísraelsmanna. 5 Á þeim degi brýt ég boga Ísraels á Jesreelsléttu.“ 6 Hún varð aftur þunguð og ól dóttur. Drottinn sagði við Hósea: „Gefðu henni nafnið Miskunnarvana því að ég mun hvorki miskunna Ísraelshúsi framar né fyrirgefa því. 7 En ég mun miskunna Júdahúsi vegna Drottins, Guðs þess, en ég mun ekki hjálpa því með boga, sverði eða bardaga, hestum eða riddurum, heldur vegna Drottins, Guðs þess.“ 8 Þegar Gómer hafði hætt að gefa Miskunnarvana brjóst varð hún aftur þunguð og ól son. 9 Drottinn sagði: „Láttu hann heita Ekki-lýður-minn því að þér eruð ekki lýður minn og ég verð ekki með yður.“ |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society