Amos 1 - Biblían (2007)Dómur yfir ýmsum þjóðum 1 Orð Amosar, eins af fjárhirðunum í Tekóa, sem honum vitraðist um Ísrael á dögum Ússía Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs, tveimur árum fyrir jarðskjálftann. 2 Hann sagði: Drottinn þrumar frá Síon, lætur rödd sína gjalla frá Jerúsalem svo að hagar hjarðmannanna visna og Karmeltindur skrælnar. 3 Svo segir Drottinn: Vegna þriggja, já, vegna fjögurra glæpa Damaskus hverf ég ekki frá þessu: Af því að þeir moluðu Gíleað með þreskisleðum úr járni 4 mun ég senda eld gegn húsi Hasaels og hann mun gleypa hallir Benhadads. 5 Ég mun brjóta slagbrand Damaskus og tortíma þeim sem situr í hásæti í Bíkat Aven, þeim sem ber veldissprotann í Bet Eden. Aramear verða fluttir í útlegð til Kír, hefur Drottinn sagt. 6 Svo segir Drottinn: Vegna þriggja, já, fjögurra glæpa Gasa hverf ég ekki frá þessu: Af því að þeir hafa flutt heil byggðarlög í útlegð til að selja þau í hendur Edóm 7 mun ég senda eld gegn múrum Gasa og hann mun gleypa hallir hennar. 8 Ég mun tortíma þeim sem situr í hásæti í Asdód, þeim sem ber veldissprotann í Askalon. Því næst beini ég hendi minni gegn Ekron svo að þeim sem eftir eru af Filisteum verði eytt, hefur Drottinn Guð sagt. 9 Svo segir Drottinn: Vegna þriggja, já, vegna fjögurra glæpa Týrusar hverf ég ekki frá þessu: Af því að þeir sendu heil byggðarlög í útlegð til Edóms og virtu ekki bræðrasáttmálann 10 mun ég senda eld gegn múrum Týrusar og hann mun gleypa hallir hennar. 11 Svo segir Drottinn: Vegna þriggja, já, vegna fjögurra glæpa Edóms hverf ég ekki frá þessu: Af því að þeir ofsóttu bræður sína með sverði og kæfðu alla samúð með þeim, af því að þeir rændu í óslökkvandi reiði sinni og héldu heift sinni sífellt vakandi 12 þá mun ég senda eld til Teman og hann mun gleypa hallirnar í Bosra. 13 Svo segir Drottinn: Vegna þriggja, já, vegna fjögurra glæpa Ammóníta hverf ég ekki frá þessu: Af því að þeir ristu þungaðar konur í Gíleað á kvið, þegar þeir ætluðu að stækka land sitt, 14 mun ég kveikja eld í múrum Rabba og hann mun gleypa hallirnar þar þegar heróp kveður við orrustudaginn, þegar fárviðri geisar óveðursdaginn. 15 Konungur þeirra verður að fara í útlegð, hann og allir hirðmenn hans, segir Drottinn. |
Icelandic DC Bible © Icelandic Bible Society, 2007
Icelandic Bible Society